Wednesday, March 11, 2009

Skattahækkanir Indriða í skjóli Steingríms J og VG

Indriði H. Þorláksson ,núverandi settur ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og fyrrv. ríkisskattstjóri og skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, fer mikinn þessa dagana og talar um að hækka þurfi skatta hér hressilega, ekki seinna en strax.

Álverin hér á landi fá einnig athygli Indriða en hann hefur haldið því fram að skatttekjur af þeim séu litlar. Þessu hefur verið hafnað með tilheyrandi rökum enda höfum við miklar skatttekjur, bæði beinar og óbeinar af starfsemi þeirra.

Í þessu samhengi er ágætt að rifja upp stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, þ.e. virkjunarframkvæmdir við Kárahnjúka. Á þeim tíma var áðurnefndur Indriði ríkisskattstjóri. Þá var rangur aðili skyldaður til að halda eftir staðgreiðslu skatts launamannanna og var það gert á ábyrgð Indriða sem ríkisskattstjóra. Þetta leiðir síðan til þess að íslenska ríkið þarf að greiða til baka innheimtan tekjuskatt að upphæð 1.3 milljörðum króna auk vaxta, sem eru líka peningar! Með öðrum orðum fékk íslenska ríkið ekki krónu í tekjuskatt af vinnu nær flestra erlendra starfsmanna við þessa framkvæmd. Á sama tíma segir maðurinn að starfsemi og rekstur álvera skili litlum sem engum skatttekjum í ríkissjóð. Er þetta sómasamlegur málflutningur?

Um þessar mundir er margt fólk að missa vinnuna, tekur á sig skert starfshlutfall eða lægri laun Auk þess hefur matur ásamt annarri nauðsynjavöru hækkað mikið sem og afborganir lána. Við þurfum ekki á skattahækkunum Indriða að halda. Við gætum hins vegar haft talsverð not af þessum ríflega milljarði sem við urðum af vegna embættisafglapa hans.

Er það ekki almenn krafa í dag að menn axli ábyrgð á gjörðum sínum? Hvernig ætlar Indriði ráðuneytistjóri að axla ábyrgð sína á framangreindu klúðri? Ætlar Steingrímur J að hafa þennan mann í eftirdragi ef VG komast í næstu ríkisstjórn? Fólk á rétt á því að vita það. Eiga menn ekki að bera neina ábyrgð á gjörðum sínum af því þeir eru vinstri-sinnaðir og skýla pólitík sinni á bak við „embættismanna-grímuna“?
VAV

1 comment:

  1. Ætlarðu ekki að fara að blogga um fundarhöldin um helgina. Ég vil gjarnan lesa um þína skoðun....skýrsla endurreisnarnefndar er sóun á pappír - Davíð lýgur aldrei er það nokkuð?

    hrp

    ReplyDelete